Að geta hamið sig við æfingar

Þetta er og mun alltaf verða erfitt, sérstaklega þar sem að ég er með vefjagigt og þreytan gefur sjaldan boð á undan sér. Ég get verið í miðri æfingu þegar hún hellist yfir mig og ég verð að hætta. 

Í byrjun varð ég þreytt eftir 5 mínútur, en ég lærði fljótt að skilja á milli þess sem var vefjargigtarþreyta og líkamleg þreyta sem kom af áralangri setu og hreyfingarleysi. Með því að þekkja mismuninn gat ég ýtt mér lengra og lengra, pínt mig aðeins meira, aðeins lengra. En það komu dagar og koma ennþá dagar þar sem að sófinn er minn besti vinur, en í staðin fyrir að þeir dagar eru á hverjum degi þá koma þeir núna á 2-3 mánaða fresti, og sérstaklega koma þeir ef ég næ ekki að sofa nóg eða borða rétt. 

Ég er nefnilega búin að komast að því að lykilatriðið við að ráða við vefjagigtina er matur og svefn. Sofa nóg, og sofa vel. Það er nefnilega ekkert samasem merki á milli þess að sofa nóg eða sofa vel. Besti svefninn minn er oft ekki nema 6 klst, en ég steinsef og vakna úthvíld. Þetta er eitthvað sem við sem þjáumst af vefjagigt lítum á sem lúxus, og ég elska þær nætur sem ég sef vel. 

Maturinn er líka lykilatriði, ég þoli illa sykur, og hröð kolvetni, og reyni að borða sem minnst af þeim. En fyrir utan það þá verð ég líka að borða nægilegaoft og nægilega mikið miðavið hreyfingu. Ég æfi 3 í viku 2 klst í senn, og svo er ég í vinnu þar sem að ég er á labbi í 6,5 klst á dag. Þetta krefst næringar, og maður má ekki vera hræddur við að borða ef maður borðar hollan mat. Maturinn er svo ótrúlega mikilvægur, miklu meira en margir halda. 

Margir spyrja mig hvort að ég geti í alvöru lyft lóðum, hvort að ég geti farið út að skokka, eða í sund. Já er svarið við þessu öllu. Ég hef ekki ennþá fundið æfingar sem ég get ekki gert, en ég get kannski ekki gert þær jafnvel eða jafnlengi. Styrktaræfingar hafa verið mér ómetanlegar, það að geta lyft lóðum, og fundið fyrir auknum styrki í líkamanum er svo mikilvægt. Styrkja vöðvana sem halda manni uppi, gerir það að verkum að líkamsstaðan breytist, og verkirnir minnka (allavega hjá mér). Sund hefur líka verið æðislegt, þar sem að það mýkir allt. Er alveg yndislegt að synda 1 km og liggja svo í pottinum á eftir. 

En munið bara eitt, byrjið hægt, finnið það sem ykkur finnst skemmtilegt, því ef það er leiðinlegt þá getið þið alveg eins sleppt því. Tónlíst hefur skipt miklu máli hjá mér við æfingar, því það kvetur mig áfram. Hvað kvetur þig áfram? Hvernig líður þér að æfingu lokinni? Þreytt, útkeyrð, finnst þú hafa sigrast á einhverju? Slæmir verkir eða þreytuverkir? Hlustaðu á líkamann, lærðu að þekkja sjálfan þig. 


Að geta hamið sig við að borða

Er búin að eiga frábæra helgi í Reykjavík þar sem stóra stelpan mín fékk gull á íslandsmeistaramóti unlinga. Fyrir okkur er þetta stórt, þar sem að þetta var hennar fyrsta keppni, og fyrir mig sem baksviðs aðstoðarmanneskja var þetta líka stórt því þetta mót var líka fyrir öldunga (okkur sem erum komin yfir 40 ára aldurinn) og þar sá ég að ég barasta get alveg keppt í þessu líka, fyrir minn aldursflokk. 

En það er þetta að geta hamið sig, haft stjórn á sjálfri sér, og náð tökum á því sem er mans stærsta vandamál. Þetta er og verður mér alltaf erfitt, ég varð og verð ennþá að horfast í augun við þá staðreynd að það er erfitt að hemja sig, sama hvort að það er í sambandi við æfingar, matarræði eða hvað það nú´er. 

Lykillinn hjá mér er skipulag og rannsóknarvinna. Allir vita að ef maður borðar meira enn það sem maður brennir þá fitnar maður.... jú það er búið að hamra á þessu við mann dag inn og dag út, en hvað á maður að borða, hvað má maður borða. Er ekkert leyfilegt, er allt leyfilegt, hvað er holt og hvað er óholt. 

Sumir segja að alt sé gott í hófi, og ég stend við þá setningu. En vandamálið er að halda sér í hófi. Ég tók upp á skamtastærðum þegar kom að einhverju sem mér finnst svakalega gott. Ég á eina skál sem ég notaði sem nammiskál. Ég viktaði aldrei, og vikta ennþá ekki í hana, en ég fylli hana heldur aldrei. Í þessa skál set ég það sem mér finnst svakalega gott, og þegar það er búið úr henni þá er það búið. Það er mismunandi hvað ég set í þesa skál. Á laugardögum eða föstudögum (ekki báða dagana) set ég súkkulaði, og annað gott. Aðra daga hnetur, döðlur, ávexti, cheerios (ekki hunangs) og stundum nokkrar smákökur, komst að því um daginn að það er pláss fyrir eina muffins í skálinni sem er bara alveg nóg. 

Annars þá hef ég búið til margar hollar kökur og nota mikið uppskriftir frá fitfocuse  Það er reyndar allt á norsku, en ég hef fengið leyfi til að þýða uppskriftirnar, svo kannski seinna kem ég með nokkrar hérna fyrir ykkur til að prófa. Annars þá finnst urmull af allskonar uppskriftum á netinu. 

Ég nota mikið orðið sukkrin í staðin fyrir sykur, og ef ég er að baka eitthvað td eins og gamla góða skúffukakan þá set ég yfirleitt 1/3 av sykrinum sem stendur. Þetta er ekki bara afþví að ég vildi léttast, eða af því að ég þarf að halda mér frá hvítum sykri, ég geri þetta líka af því að það finnst sykur í öllu í dag, og við þurfum ekki að nota svona mikinn sykur í allt. Krökkunum finnst ennþá skúffukakan jafn góð og í gamla daga, og um daginn fengu þau "ekta" skúffuköku með eins miklu sykri og á að vera, og þeim fannst hún of sæt.... 

Ég er líka mikil matmanneskja og finnst matur, sérstaklega kvöldmatur með góðri sósu það besta í heimi... og ég vildi nú halda áfram að borða gómsætan góðann mat, sem ég líka geri enn þann dag í dag, með nokkrum smá breytingum. Nr.1, ég hef alltaf grænmeti með, og nr.2 ég drekki ekki matnum í sósu, heldur fæ mér bara 1-2 msk af sósu með. Að borða matinn hægar er ég enn að vinna með, því eftir margra ára vana að gleypa í sig matinn er þetta ekkert svakalega auðvelt, en eitt skref í einu, eitt skref í einu. Stundum tekst þetta, stundum ekki. 

Hvaða leyðir myndir þú nota til að hemja þig í matarvenjunum ? Hverju myndir þú breyta? Geturðu lifað með þeim breytingum sem þú skipuleggur? 

 

 


Hreyfing, hvernig, hvenær, hvar

Næsta stóra skref fyrir mig og það var risastórt skref, var hreyfing. Mig verkjaði allstaðar og þá meina ég allstaðar. Bara tilhugsunin við að reyna að koma sér framúr rúmminu var vond. Fara á klósettið var vont, hvað þá að elda mat eða fara í sturtu. Allt var hryllilega vont, og mér leið stundum eins og ég hefði brennt mig, allstaðar. 

En ég var byrjuð á ferðalagi, ferðalagi sem ég vissi að myndi aldrei taka enda. Ferðalagi sem ég vissi að ætti eftir að breyta mér. Ég var búin að fara í allskyns rannsóknir sem aldrei sýndu eitt né neitt, þannig að ég vissi að ég var ekki að eyðileggja neitt með hreyfingu, og vefjagigtin er nú þannig að maður verður að hreyfa sig annars versnar hún bara. 

En það erfiðasta við akkúrat vefjagigtina er að geta hamið sig, því ef maður ofkeyrir sig þá er maður á byrjunarreit eða kannski ennþá aftar. Þetta var og er ennþá ansi erfitt. Hvernig á maður að stoppa áður en maður verður þreyttur þegar maður finnur ekki fyrir þreytunni fyrr en altí einu ? 

Ég byrjaði rólega. Fyrstu 3 vikurnar var nóg að labba 20 metra fram og tilbaka, eða taka bara stigann upp og niður einu sinni. Suma daga var það meira segja of mikið, og ég var komin aftur á byrjunarreit. Eftir 3 vikur fann ég að ég var ekki lengur þreytt eftir þetta, þetta var orðið auðvelt, og ég lengdi ferðina. Eftir 2 vikur var sú ferð orðin of stutt, og eina viku eftir það komst ég í minn fyrsta alvöru göngutúr ca 100 metrar. Fyrir mig var þetta sigur, þetta var hægt. Mig var að takast þetta, og mér leið miklu betur bæði andlega og líkamlega. Þolinmæðin hinsvegar var alveg við það að gefast upp,,, en þá tók þrjóskan við.

                            ÉG SKAL ÉG GET ÉG ÆTLA

Ég get alveg sagt ykkur það að þessar fyrstu vikur voru hinar verstu sem ég hef á æfinni upplifað. Var mér illt ó já, var ég þreytt, ó já. Var ég oft við það að gefast upp Ó JÁ... en í hvert sinn sem ég var við það að gefast upp þá hugsaði ég um litlu stelpuna mína og svipinn á henni þegar ég varð að segja henni að ég gæti ekki horft á fótboltaleikinn hennar sökum þreytu og verkja. Ég skoðaði myndir af mér, þar sem ég sá hversu þreytuleg, hversu feit og útkeyrð ég var, og hugsaði um leið, nei ekki þangað aftur, ALDREI AFTUR.

Hvert er ykkar markmið, hvert stefnið þið, hvernig viljið þið ná því, og hvað er það sem rekur ykkur áfram?

 

Með þessum orðum kveð ég að sinni, og er farin út að skokka í yndislegu vorveðri.

 


Að ná stjórn á sjálfri sér

Já, langt síðan síðast, fyrirgefiði, lífið er stundum of upptekið fyrir blogg.

En ef ég held áfram þar sem frá var horfið. Einn sá mikilvægasti hluti þess að léttast, og halda sér þar er að ná stjórn á sjálfum sér. Skoða alveg ofaní kjölinn hvað það er sem maður er að gera vitlaust, og eiginlega það sem er mikilvægast það sem maður er að gera rétt. Þetta á við alveg sama hvort að það er hreyfing eða matarræði. 

Það tók mig 6 mánuði að ná stjórn á matarræðinu,og þeim breytingum sem þurftu til. Já þið lásuð rétt 6 mánuði. Ég ákvað að taka eitt í einu. Fyrst var morgunmaturinn, svo var skammtastærðir og fjöldi máltíðna. Þegar þangað var komið leyt ég á hvað ég var að gera rétt og hvað ég var að gera rangt. 

Áður en ég fór að taka út einhverjar matvörur, eða breyta þeim ákvað ég að drekkja mér í lesningu um sjúkdóma mína. Semsagt vefjagigt, liðagigt og hægur/latur skjaldkirtill. Þetta var mikið efni og margar mismunandi sögur. En eitt stóð upp úr hjá flestum. Vöðvigtarsjúklingar eiga í erfiðleikum með að vinna nægilega vel úr b og d vítamínum - þarna gat nú komið skýringin á eilífðri þreytu og sleni. 

Vefjagigit, þar komst ég að því að sykur væri eitur, einnig hvítt hveit, hrísgrjón og pasta. Semsagt hröð kolvetni væru ekki góð fyrir liðina. 

Skjaldkirtillinn, þar var svo mikið upp og niður, en eina sameiginlega sem ég pottþétt fann, var soya og soyavörur, þær myndu hæga enn frekar á skjaldkirtlinum.

Nú jæja, þá var nú bara að bretta upp ermarnar aftur. Fór að taka B og D vítamín fast, reyndi eftir bestu getu að minnka sykurinn (og já það finnst sykur í öllu því miður) Hvítt hveiti, hrísgrjón og pasta glími ég enn við, því mér finnst bara sumt ekki bragðast eins vel án. En ég bara minnkaði að borða það, og nota annað í staðinn við öll tækifæri sem gefast.

Í öllu þessu komst ég að einu mikilvægu um sjálfan mig og líkama minn varðandi mat. Kolsýrt vatn, gos, og aðrir drykkir æsa upp matarþörf og sætuþörf hjá mér. Ef ég drekk eitthvað með kolsýru í þá er eins og að ég verði aldrei södd. Ég get bara borðað og borðað og borðað... spáið í þessu næst þegar ykkur finnst þið hafa misst stjórnina. Hvað er það sem veldur því að þið verðið ekki södd? 


Kvöldmatur, kvöldsnarsl, kvöl og pína eða ?

Já, þá er komið að minni stórru ástríðu og þar að auki vandamáli, kvöldmatur og kvöldsnarl. Ég elska að borða góðan mat, og mér finnst mjög gott að sitja og slappa af við spil eða horfa á sjónvarpið og fá mér eitthvað gott í skál. Þessar skálar urðu með tímanum sífellt stærri og stærri, og innihaldið varð sífelt óhollara og óhollara. Þar sem að ég borðaði ekkert á morgnana og svo borðaði ég orðið lítið í hádeginu, þá uppgötvaði ég að kvöldmaturinn varð sífellt stærri og stærri. Þessu varð ég að breyta, því augljóslega var ég að taka inn alla aukakalóríurnar sem eg þurfti alls ekki á að halda í þessum tveimur máltíðum. 

Fyrsta verkefni, kvöldmaturinn, hvað var til ráða. Hvernig gat ég breytt þessu þannig að ég gæti lifa með því það sem eftir væri? Jú, ég byrjaði á því að setja inn aukamáltíð milli hádegis og kvöldmats. Í byrjun var það kannski ekki það hollasta af öllu, en þar sem að ég var nú búin að tæma skápana af keksi og snakki (Ert þú búin/n að því?) Þá varð þetta auðveld leið að finna eitthvað annað. Eitthvað annað gat td verið lítil skyrdolla, jógurt (jú veit að hún inniheldur mikinn sykur, en ég varð að finna eitthvað að borða). Það gat verið skál með hnetum og rúsínum, hrökkbrauðsneið með áleggi, bollasúpa. Bara það sem mér datt í hug hverju sinni. Þessi aukamáltíð varð í mínum huga að taka stuttan tíma, og ég passaði mig á því að skammta mér. Setti á disk fyrir framan mig það sem ég ætlaði að borða, og fór frá borðum þegar því var lokið. Settist ekki niður aftur fyrr en eftir 5-10 mínútur því þá fann ég að mig langaði ekki í neitt meira. Bara svona smá ábending, ef maður stendur upp frá borðum þegar maður er búinn með skammtinn sinn og fer að gera eitthvað annað þá finnur maður yfireitt eftir smá stund að maður þarf ekki á meiru að halda. 

Kvöldmáltíðarskammturinn minn minnkaði aðeins við þetta, ég fékk mér allavega ekki aftur á diskinn, en diskurinn var ansi fullur, allavega í byrjun. Þetta var þó breyting, því ég fann líka að samhliða því að ég borðaði ekki alveg eins mikið yfir mig af kvöldmatnum þa einhverra hluta vegna varð ég ekki svona svakalega svöng á kvöldin lengur. Jú mig langaði ennþá í smá snarl (og geri enn, og mun líklega alltaf gera) en nammiskálinn var ekki lengur eins lokkandi. Ég fékk mér stundum ávexti, stundum hnetur, stundum döðlur (döðlur er orðnar í miklu uppáhaldi hjá mér), og stundum sat ég bara hreinlega með tyggjó og prjónaði. Það dugar mér oft ennþá, að hafa eitthvað að gera með höndunum og sykurlausar töflur eða tyggjó. 

Ert þú eins og ég sem borðar yfir þig í kvöldmatnum, og verður svo aftur svöng seinna um kvöldið og nælir þér þá gjarnan í eitthvað óholt? Spáðu í hvað þú gætir verið að gera vitlaust, afhverju er líkaminn að kalla á allan þennan mat? Og hvernig ert þú tilbúin/n til að breyta þessu. Því þetta er þitt líf, og þín breyting ekki mín.... 

Hér gildir ekkert gerðu eins og ég segi, þú verður að finna þína eigin leið, og halda þér við hana. 

20150206_182803


Hvar, hvernig á að byrja ?

Fyrsta þrep, ákveða að breyta lífi mínu var hafið.

Annað þrep, lífsstílsbreytinging, var öllu erfiðari.

Hvar á maður að byrja, hvernig á maður að byrja. Ég ákvað að byrja með því að líta á eina máltíð í einu, hægt og rólega. Þolinmæði og ennþá meiri þolinmæði á þessu stigi málsins. Ég varð ekki sófadýr á einni nóttu, og ég kemst ekki upp úr sófanum á einni nóttu heldur. Bak í hausnum á mér hringspólaði hugsunin, ég ætla, ég ætla, mér skal takast þetta. 

ÞOLINMÆÐI - ÞRJÓSKA - ÁKVEÐNI

 

Ég ákvað að byrja á skammtastærðinni fyrst. Hvað þurfti manneskja eins og ég eiginlega að borða mikið í hverri máltíð ? Miðavið hvað ég hreyfði mig lítið, þá þurfti ég ekki að borða mikið meira enn viðhaldsfóður. Bara að labba upp og niður tröppurnar á milli hæða var erfitt, hvað þá að ætla að gera einhverjar æfingar. Hversu mikið fóður þyrfti ég fyrir þessa litlu hreyfingu. Eitt var allavega öruggt, ég þurfti ekki, og þá meina ég alls ekki að fá mér aftur á diskinn því svo mikilli orku eyddi ég ekki yfir daginn, að ég þyrfti að borða tvo diska í hverri máltíð. 

Morgunmaturinn var svosem í lagi, því ég borðaði hvort eð er ekkert svo oft morgunmat, þannig að ég lét hann bara vera, í bili. En þegar kom að hádegi, var ég orðin svo svöng að ég gleypti í mig matinn, og borðaði þá gjarnan yfirfullan eða tvo diska, og eins í kvöldmatnum. Þessu varð ég að breyta, þannig að ég fór að reyna að venja mig á að borða morgunmat, hægt og bítandi, og stundum með erfiðis munum, fékk ég mér morgunmat á hverjum degi, og ég setti mér það markmið til að byrja með að ég yrði að vera búin að borða morgunmat fyrir kl.10 alla daga - líka um helgar - hvað ég borðaði í morgunmat var á þessu stigi ekki svo mikilvægt. 

Þetta varð til þess að ég ósjálfrátt fór að borða minna í hádeginu. Tveir diskar urðu að einum, og þessi eini diskur varð smátt og smátt að venjulegri skammtastærð. 

Hvaða matmálstíma ert þú að sleppa? Hvaða matmálstíma ert þú að borða of mikið, borða tvo diska? Og langar jafnvel í meira? 

Athugið að ég byjaði ekki á því að sleppa einu né neinu, ég hætti ekki að borða neitt, enn sem komið er. Ég ákvað bara að breyta smátt og smátt því sem mér fannst vera ofaukið og óþarfi. Þurfum við að borða tvo hamborgara í kvöldmat, með frönskum og kokteilsósu, eða er kannski einn hamborgari með hálfu brauði, fullt af grænmeti og kannski 10 franskar nóg? Við fáum mat aftur á morgun er það ekki.... það verða til hamborgarar aftur í næstu viku, næsta mánuði, næsta ár ? Er það ekki? Höfum við ekki alltaf aðgang af mat ef við erum svöng? Afhverju látum við þá alltaf eins og að við séum að borða okkar síðustu máltíð í fleiri vikur eða mánuði? Er ekki betra að njóta þess sem við erum að borða, í staðinn fyrir að gleypa matinn og finna varla bragð af honum ? 

Hvað gerir þú, þegar þú ert að borða? Gleypir matinn, borðar of mikið, eða nýtur hans og borðar hægar? 

 

 


Hin nýja ég

Þið kannski trúið mér ekki, þegar ég segist hafa náð þessum árangri á einu ári. Sem betur fer þá á ég myndir þessu til sönnunar, og mér til varnaðar. Því ég ætla aldrei aftur þangað sem ég var. 

Það eru margir búnir að spyrja mig hvernig ég hafi farið að þessu. Hvort að ég hafi svelt mig, hvort að ég lifi bara á hollustu fæði og grænmeit. Hvort að ég hafi gerst vegan - eða grænmetisæta og svona get ég lengi talið. Og svarið er alltaf það sama, nei og aftur nei. 

Fyrsta skrefið hjá mér, var hugarbreyting. Vildi ég lifa svona áfram, vildi ég reyna enn einn megrunarkúrinn (sem myndi pottþétt ekki virka)eða gæti ég fundið eitthvað sem virkaði fyrir mig og það mikilvægasta af öllu, eitthvað sem ég gæti lifað með það sem eftir er af æfinni. 

Þar liggur lykillinn að þessu öllu saman, finna lífsstíl sem þú gætir hugsað þér að lifa alltaf, alla daga. Ekki bara í eina viku, einn mánuð, eitt ár. Alltaf.. mundið þetta orð. Alltaf, alltaf, alltaf. 

Er eitthvað sem þú getur breytt í matarvenjum þínum til frambúðar ? Það var mín fyrsta spurning. Jú, ég gat alveg sleppt snakki (fékk hvort eð er alltaf vont í magan af því)og fengið mér popp í staðin. Þurfti ég að fá mér stóra skál af nammi á föstudags, laugardags og stundum sunnudagskvöldi ? Nei, það var alveg nóg að fá mér litla skál af nammi eitt kvöld í viku, og þá bara eitthvað annað hin kvöldin (ef mig langaði í eitthvað). Þurfti ég alltaf að klára af diskinum mínum og fá mér meira (eða klára afgangana hjá börnunum). Þetta var mér svakalega erfitt því mamma kenndi mér að maður ætti alltaf að klára af diskinum sínum, og þetta erum við alltaf að kenna börnunum okkar. En er þetta rétt, ef maður er saddur, afhverju þarf maður þá að belgja sig út, og borða yfir sig. Afhverju ekki bara hætta áður en maður verður pakksaddur, borða hægar, og láta svo afgangana bara inní ísskáp og borða þá seinna. Er það ekki alveg hægt? 

Læt ykkur hugsa um þetta smá í dag og á morgun. Smá verkefni fyrir ykkur. Setjið saman lista yfir þær matvörur sem þið finnið að þið getið alveg sleppt, eða minnkað. Þarf alltaf að vera til kekspakki uppí skáp (við borðum hann ef hann er til, en þurfum alls ekki á honum að halda. Hefði alveg verið nær að fá sér ávexti/döðlur/hnetur) 

september 2014oktober 2015


Welcome.... velkomin... nýtt líf, ný byrjun, nýr dagur

Já eftir smá vangaveltur ákvað ég að byrja að blogga. Hef svosem reynt það oft áður og alltaf gefist upp. Kannski vegna þess að ég hafði aldrei neitt ákveðið að blogga um. 

En fyrst um mig, ég er ósköp venjuleg, (tja spurning hvað lagt er í orðið venjulegt) kona sem ákvað að breyta lífi mínu til hins betra. Ákvað að vera ekki eins og allir hinir, og taka stjórn á lífi mínu og líkama í stað þess að láta stjórnast. 

Gæti hljómað eins og enn ein blogg færslan þar sem boð og bönn eru allsráðandi, og enn ein reynslusagan þar sem allt hefur rósrauðan endir. Alt er gott sem endar vel, ekki satt ? Jú, kannski nema að einu leyti, mín saga endar aldrei og vonandi heldur hún áfram endalaust um aldur og æfi. 

Því minn draumur er stór, svo stór að stundum velti ég því fyrir mér hvar ég eigi að byrja, og hvert ég eigi að stefna með þetta allt saman. En ég ákvað að byrja hér og nú.

Til að gera langa sögu stutta: Í september 2014 var ég 105 kg sófadýr, með vefja og liðagigt, gat ekki unnið, gat ekki hreyft mig fyrir verkjum, og fannst lífið ömurlegt og tilgangslítið. Framtíðin var svört, og alt stefndi í örorku. Örorka áður en ég yrði 40 ár a gömul.... Hver vill það? 

Hvað gerðist er ég ekki ennþá viss um, en ári seinna var ég 72 kg, og full af fjöri, farin að vinna og gera það sem mig dreymdi um. Hvernig ég fór að því, ætla ég ekki að halda leyndu fyrir ykkur, né taka gjald fyrir að leyfa ykkur að lesa sögu mína. Alls ekki. Ég mun eftir bestu getu reyna að leiðbeina ykkur í gegnum mína sögu og reynslu, ef þið hafið áhuga. 

Ég er enn með liða og vefjagigt, og það er og verður alltaf hluti af mér. Í dag er ég að sumu leyti þakklát fyrir sjúkdóma mína, því án þeirra hefið ég kannski aldrei vaknað. 

Hvað þar til þess að þú vaknir? Hvað þarf til þess að þú áttir því á því að staða þín í dag er sú staða sem þú ætlaðir aldrei að lenda í þegar þú varst yngri? Hvernig vilut að framtíðin þín verði? Spáðu í þessu smá, það er aldrei of seint að stoppa, og snúa við. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband